149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég hef í ræðu minni verið að fara yfir vangaveltur og spurningar sem lúta að tengingunum milli þriðja og fjórða orkupakka, þ.e. hvaða spurningar sé eðlilegt að skoða í samhengi vegna þess að allt er þetta ein samfella. Ég mun, ef tækifæri gefst til, fara síðar yfir minnisblað sem kom frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti 2004 þar sem farið er yfir þær óskir um aðlaganir og annað sem Íslendingar fóru fram á á sínum tíma.

Mig langar að nefna eitt áður en lengra er haldið, hæstv. forseti. Í þessu blaði eða minnisblaðið, og það kann að skipta máli í umræðunni um sæstreng, er að Noregur óskaði á sínum tíma eftir undanþágu frá gerð 72/2009. Áður hafði því verið hafnað að Ísland væri lítið einangrað kerfi, en um undanþágu Noregs segir í þessu minnisblaði frá atvinnuvegaráðuneyti á sínum tíma, með leyfi forseta:

„Noregur óskaði eftir undanþágu frá því að tilskipunin gilti um raforkuflutning til olíuborpallanna á landgrunni Noregs. Framkvæmdastjórn samþykkti ekki aðlögunina, tilskipunin gildi um starfsemi í sérefnahagslögsögunni (EEZ) og landgrunni aðildarríkja.“

Einhverjir hafa velt því upp að það geti ekki verið að þessi gerð gildi um landgrunnið, hafsbotninn. En ég fæ ekki betur séð en árið 2014 hafi þegar verið kveðið upp úr af hálfu framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins þegar Noregur reyndi að fá undanþágu fyrir raforkuflutninga til olíuborpalla sinna, sem ég geri ráð fyrir að séu strengir sem lagðir eru á hafsbotninn til borpallanna, að framkvæmdastjórnin samþykkti ekki aðlögunina vegna þess að tilskipunin, 72/2009, gilti um starfsemi í sérefnahagslögsögunni EEZ og landgrunni aðildarríkjanna.

Ég ætla að vona að þeir sem hafa haldið því fram að þessi tilskipun gildi ekki um landgrunnið á Íslandi, velti því fyrir sér hvort það sé annað íslenska landgrunnið og hið norska.

Ég er ekki það fróður í þessum lögum að geta fundið það út. Mér dettur reyndar ekki í hug að svo sé. Landgrunn aðildarríkjanna að EES-svæðinu hlýtur alltaf að vera túlkað eins, með sama hætti. Því hlýtur að vera býsna ljóst að þarna er um að ræða enn eitt atriði sem þyrfti að ræða og fá skýrari mynd af.

Ég er ekkert viss um það, virðulegur forseti, að fylgjendur þessa máls hafi gert sér grein fyrir því að Evrópusambandið lítur svo á að gerðin gildi ekki bara um fastalandið heldur líka hafsbotninn innan lögsögu hvers ríkis.

Þetta var viðbót. Ég verð nú að viðurkenna, herra forseti, að ég var búinn að lesa þetta fyrir nokkru síðan en ekki búinn að koma því að, hefði kannski átt að gera það fyrr. En þetta er mjög mikilvægt atriði. Þannig að það sé ítrekað hér í ræðustól er þetta í minnisblaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, skrifstofu orku- og iðnaðar. Utanríkismálanefnd sem fékk þetta sent. Minnisblaðið er dagsett 28. apríl 2014.

En að þeim spurningum sem ég var að velta fyrir mér og tengjast þessu vitanlega að einhverju leyti. Nú má velta fyrir sér hvort innleiðing 72/2009 feli þá í sér valdaframsal sem samræmist ekki stjórnarskrá. Erum við hugsanlega að framselja eitthvert vald yfir landgrunninu okkar? Hefur það mál verið reifað, hæstv. forseti? Ég man ekki eftir að hafa séð það. Kannski hefur það bara runnið fram hjá og kannski telja menn að það sé innifalið í öðrum gerðum. En er það þannig að við séum með þessu að afsala okkur því hvað við setjum niður á botninn í efnahagslögsögu okkar, hvort sem það eru rafstrengir eða eitthvað annað?