149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:55]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afar áhugaverða ræðu og innlegg inn í þessa umræðu sem hefur ekki komið fram fyrr. Þegar kemur að landgrunninu og hafsbotninum er þetta grundvallarspurning sem þar þarf að svara, þ.e. hvort við séum að afsala okkur einhverjum réttindum þar. Og það sem hv. þingmaður nefndi hér og rakti hvað Noreg varðar er mjög athyglisvert. Það sýnir það bara að það eru margir fletir á þessu máli og ávallt eitthvað nýtt að koma upp á yfirborðið sem þarf að skoða nánar og fá svör við.

Hvað hafsbotninn varðar, ef búið verður að leggja sæstreng, sem mun gerast, hvað mun það þýða? Hvað mun það þýða fyrir fiskiskip okkar? Fara verður varlega þar sem svona kaplar liggja á hafsbotni og getur það haft áhrif á fiskveiðar o.s.frv. Þannig að það er ýmislegt sem spilar inn í þar. Það er alvarlegt mál ef við þurfum að fara að afsala okkur einhverjum réttindum á landgrunninu og því sem við höfum barist fyrir árum og áratugum saman og hefur skilað okkur þeirri velmegun sem auðlind okkar, fiskstofnarnir, hefur gefið okkur. Þannig að þetta er efni sem þarf svo sannarlega að fara yfir og ég þakka hv. þingmanni enn og aftur fyrir að hafa komið inn á það.

Mig langaði að spyrja þingmann aðeins nánar hvað þetta varðar og þá einkum Noreg. Nú er það komið í ljós að norski Verkamannaflokkurinn setti fyrirvara og samstaða náðist í Stórþinginu um að settir væru fyrirvarar, sem Evrópusambandið virtist síðan ekki vilja hafa með. Hver má áætla að (Forseti hringir.) verði niðurstaða þessa máls, hv. þingmaður? Telur hv. þingmaður að það verði (Forseti hringir.) niðurstaða sem komi frá stjórnlagadómstólnum (Forseti hringir.) sem geti haft fordæmisgildi hvað okkur varðar?

Afsakið, forseti.

(Forseti (WÞÞ): Tek afsökunarbeiðnina gilda frá hv. þingmanni, en minni ítrekað á að virða tímamörk.)