149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Ég treysti mér ekki til að svara því lögfræðilega hvaða fordæmi eða áhrif niðurstaða stjórnlagadómstólsins í Noregi kann að hafa. Mögulega hefur hún engin áhrif, en mögulega getur hún haft áhrif eða gefið vísbendingar um það hvers virði, við skulum orða það þannig, fyrirvarar eru sem gerðir eru með þessum hætti, einhliða. Ég get ekki ímyndað mér að það sé einhver munur á því í Noregi og Íslandi ef ríkisstjórn gerir fyrirvara einhliða, að það sé einhver önnur túlkun á því.

En það er hins vegar áhugavert og væri vert að reyna að komast að því hver viðbrögð Norðmanna voru við því á sínum tíma þegar ljóst var að þeir fengju ekki þessa undanþágu frá tilskipun nr. 72/2009 varðandi raforkuflutninga til olíuborpallanna. Ef þeir innleiddu tilskipunina án þess að fá einhvers konar svigrúm, þetta minnisblað er síðan 2014, þá er það, myndi ég segja, verulegt tilefni fyrir Ísland til að staldra við. Því að ég man ekki eftir því í nefndaráliti utanríkismálanefndar eða atvinnuveganefndar í nokkrum þeim gögnum sem við höfum séð — það kann að vera að ég muni ekki eftir að hafa lesið eitthvað af álitum sérfræðinganna, ég ætla ekki að fullyrða það — að einhver hafi minnst á landgrunnið og efnahagslögsöguna. Mér finnst það setja málið í nýtt samhengi ef við förum að velta því fyrir okkur.