149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:59]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er svo sannarlega nýr flötur á málinu og margar spurningar vakna hvað þetta varðar; hver eru áhrifin á landgrunnið og efnahagslögsöguna? Það verður að fá svör við svona áleitnum spurningum áður en lengra er haldið. Ég held að það sjái það allir hvað mikið er í húfi í þessum efnum. Ef einhver dæmi frá Noregi sýna hugsanlega fram á að þarna geti verið um að ræða afsal á réttindum yfir landgrunn fiskveiðilögsögu, þá er það náttúrlega mjög alvarlegt mál. Það kann að vera að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þessu en þá þarf að fá það staðfest. Það skiptir öllu máli í þessu þannig að síðar meir verði ekki einhver álitaefni sem mönnum yfirsást eða gerðu engan fyrirvara við og höfðu engar áhyggjur af. Það er ekki hægt að fara þannig með mál sem varðar svona gríðarlega hagsmuni að eitthvað óljóst sé varðandi réttindi okkar í þeim efnum, þessi mikilvægu réttindi sem lúta að efnahagslögsögunni og fiskveiðilögsögunni.

Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmanni enn og aftur fyrir að vekja athygli á þessu máli. Það hefði verið gott ef hér hefði t.d. formaður utanríkismálanefndar verið í salnum og komið inn í þessa umræðu. Við höfum margsinnis bent á að það sé mjög einkennilegt og dapurlegt að þingmenn aðrir en Miðflokksmenn skuli ekki vilja taka þátt í þessari umræðu með okkur og velta fyrir sér hlutum eins og þessum, sem hv. þingmaður gerði svo ágætlega.