149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:04]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessar upplýsingar, sem eru dálítið mikilvægar í ljósi alls sem við höfum nú verið að ná fram með því að halda þessu máli vakandi hér innan þingsins. Mér finnst mjög áhugavert að Noregur hafi virkilega óskað eftir þessari undanþágu hvað varðar sæstrengi, þeirra eigin sæstrengi út í þeirra eigin olíuborpalla og að þeir hafi fengið neitun frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Það eru gríðarlega mikilvægar upplýsingar.

Ég velti fyrir mér hvað muni gerast hér á landi í framtíðinni, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom aðeins inn á áðan. Ég væri til í að fá frekari útlistun á því hvað gæti verið undir hér á Íslandi. Felur valdaframsalið þá líka í sér landgrunn hér við Ísland? Hvað felst í því? Þingmaðurinn kom aðeins inn á þetta með málma í hafsbotni og slíkt. Alla vega til að byrja með vil ég spyrja hvort hann geti farið aðeins betur yfir hvað er undir ef við lítum á þetta mál.