149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:46]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Mig langar í þessari ræðu minni að koma stuttlega inn á annað atriði sem kom fram í svörum hæstv. utanríkisráðherra þegar hann var hér með okkur í á þriðja tíma sl. föstudag. Það varð svo sem, eins og ég kom inn á í fyrri ræðu um þá heimsókn ráðherrans, ekki margt um svör en þó sat eitthvað eftir og mig langar að koma inn á andsvar hæstv. ráðherra sem hófst kl. 17.47 fyrir þá sem vilja leita að svarinu. Það var í rauninni viðbragð við spurningu sem beint var til ráðherrans um það hvort hann teldi að stjórnvöld og hann í raun sem fyrirsvarsmaður málsins hefðu sinnt þeirri skyldu — þetta er auðvitað ekki formleg skylda — eða sinnt því að draga upp sviðsmyndir þannig að bæði við pólitíkusarnir, þingmennirnir, og almenningur ættum möguleika á að átta okkur á áhrifum hinna mismunandi leiða sem færar eru og í rauninni sérstaklega með áherslu á að teikna upp sviðsmynd af því hvernig umhverfið hér heima breytist fyrst við innleiðingu þriðja orkupakkans og síðan við lagningu sæstrengs, hvenær sem af því kann að verða.

Það er skemmst frá því að segja að allar slíkar sviðsmyndir höfðu því miður farið fram hjá mér en ráðherrann stóð hér staffírugur og svaraði því til, með leyfi forseta:

„… þannig að þegar hv. þingmaður talar um sviðsmyndir og annað slíkt er búið að fara í gegnum það …“

Það var bara þannig. Það er búið að fara í gegnum það. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra hafi farið í gegnum það uppi í ráðuneyti með þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna eða aðstoðarmönnum sínum. Ég veit það ekki. Hæstv. forseti er sennilega sá eini í salnum sem gæti svarað þeirri spurningu hvort sviðsmyndir hafi verið dregnar upp. Við höfum hið minnsta ekki séð neinar þeirra og það vantar ekki að kallað hefur verið eftir því að utanríkisráðherra kynni einhverjar úttektir á því, hagfræðilegar eða í rauninni hverrar gerðar sem er. Það hefur ekkert verið lagt fyrir okkur þingmenn til að reyna að greina áhrif þess að innleiðingin eigi sér stað og hvaða áhrif lagning sæstrengs hefur síðan, nema einhver innantóm staðhæfing um að þetta muni allt saman lækka verð stórkostlega.

Í því samhengi kom fjórum mínútum síðar sami hæstv. ráðherra í andsvar við þann sem hér stendur og sagði, með leyfi forseta:

„… verð hefur lækkað samkvæmt úttektum frá tveimur aðilum. Raforkusöluþátturinn hefur lækkað en af því að við höfum farið í framkvæmdir á burðarmannvirkjum og öðru slíku hefur flutningsþátturinn hækkað.“

Þetta er einmitt kjarnaatriðið í þessu öllu. Fyrir heimili og fyrirtæki landsins skiptir ekki miklu máli hvernig raforkureikningurinn skiptist. Það sem fyrst og fremst skiptir máli er heildarupphæðin og ef stuðningsmenn þessarar innleiðingar, á þeim forsendum sem hæstv. utanríkisráðherra stillir upp, eru þeirrar skoðunar að það sé næg sviðsmyndargreining að hæstv. ráðherra haldi því fram að raforkuverð muni lækka og þar með sé það útrætt erum við á einhverjum stað sem ég held að fæst okkar vilji vera á hvað varðar faglega framsetningu og tilraun til rökstuðnings.

Ég get ekki ímyndað mér að nokkrum þingmanni ríkisstjórnarflokkanna líði vel með að þetta séu allar sviðsmyndirnar sem boðið er upp á nema þær hafi verið miklu ítarlegri og dýpri á þingflokksfundum. En þær hafa svo sannarlega ekki verið dregnar upp fyrir okkur, hina almennu þingmenn, og það er ekkert sem bendir til þess í svari hæstv. ráðherra frá því sl. föstudag kl. 17.47 að það hafi verið gert með öðrum þeim hætti en sem blasir við.

Eins og ég segi ég aftur, með leyfi forseta: Þegar hv. þingmaður talar um sviðsmyndir og annað slíkt er búið að fara í gegnum það. Það er bara búið. (Forseti hringir.) Það var samt ekki burðugra en svo að enginn okkar sem erum í salnum núna kannast við neina þeirra.