149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Stutta svarið við þessari spurningu er: Jú, við getum að stórum hluta gefið okkur hver áhrifin verða. Það liggur alveg fyrir að markmið orkustefnu Evrópusambandsins eru öllum ljós. Það er enginn feluleikur með þau og ég held að öllum ætti að vera ljóst sem sett hafa sig inn í málin hverjar meginlínurnar eru hvað framþróun málsins varðar, áhrif og afleiðingar.

Ég verð að segja fyrir mig að ég vorkenni stjórnvöldum samanlagt ekki neitt að draga upp þessa mynd fyrir okkur því að staðreyndin er sú að meira og minna allir — ja, allir, segir maður, þeir fáu stuðningsmenn þessarar innleiðingar sem komið hafa í ræðu við síðari umr., hafa meira og minna efnislega sagt að allar áhyggjur okkar Miðflokksmanna séu bull og vitleysa. Á meðan þannig er er það bara sanngjörn krafa að óskað sé eftir því að þeir sem tala fyrir þessu máli séu tilbúnir að útlista og teikna upp hver líklegustu áhrifin verða.

Sporin hræða í þessum efnum. Þegar hér er komið og sagt reglulega að orkuverðið hafi lækkað svo mikið við innleiðingu á fyrsta og öðrum orkupakkanum upplifa allir það sem eitthvert rof gagnvart raunveruleikanum. Ég þekki ekki margar fjölskyldur sem hafa upplifað það síðan orkupakkainnleiðingarnar hófust að heildarorkuverð heimilisins hafi lækkað. Ég væri bara gjarnan til í að heyra í nokkrum slíkum fjölskyldum. (BHar: Hjá mér.) Það er þá einhver sérdíll sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir hefur í Mosfellsbæ. (Forseti hringir.) Auðvitað er fyrirsjáanlegt hvað verður, en mér þykir sjálfsögð krafa okkar þingmanna að einhver greining sé unnin á þessu.