149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:56]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, já, þetta er alveg sanngjörn gagnrýni og rúmlega það. Auðvitað tek ég undir þetta. Auðvitað ætti, eins og ég gat um í byrjun fyrra andsvars, slík greining að liggja fyrir og það sætir undrun að sú skuli ekki vera raunin.

Ég veit hvernig kerfið virkar. Hv. þm. Bergþór Ólason veit hvernig kerfið virkar. Hæstv. forseti veit hvernig kerfið virkar, en við vitum kannski ekki hvort hæstv. utanríkisráðherra gerir sér raunverulega grein fyrir hvernig kerfið virkar eða hvort hann er annaðhvort blindur á það viljandi eða óviljandi. Kannski gerir hann sér grein fyrir því en vill forðast umræðu um þessar sviðsmyndir sem við getum nokkurn veginn gefið okkur hvernig yrðu, rétt eins og menn fela, við skulum orða það kurteislega, menn gera ekki mikið með það gríðarlega magn upplýsinga sem þó lá fyrir og hefði haft mikið skýringargildi í þessu máli um fjórða orkupakkann, stöðu mála í Noregi og norsku fyrirvarana. Svo mætti lengi telja. Þetta eru grundvallargögn í málinu sem hefðu getað hjálpað meira við sviðsmyndagreiningu en gögn sem er einfaldlega stungið undir stól. Ég óttast að ráðherrarnir, margir hverjir, séu ekki einu sinni með á nótunum um þetta allt saman. Ég byggi það t.d. á tilraunum mínum til að spyrja hæstv. ráðherra út í norsku fyrirvarana. Mér fannst þeir koma af fjöllum, sem er mjög furðulegt eftir að hafa setið uppi með málið þetta lengi, að vandræðast með það, en hafa þá ekki a.m.k. leitað fanga í Noregi þar sem menn höfðu þó farið í gegnum þetta í norska þinginu.

Getur hv. þingmaður reynt að greina þetta fyrir mig? Hver er ástæðan? Hvað veldur? (Forseti hringir.) Eru menn einfaldlega ekki með á nótunum sjálfir hvað þetta varðar eða vilja þeir ekki umræðu um það sem við teljum vera óumflýjanlegt í málinu?