149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:08]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi álit mitt á undirbúningnum verður að viðurkennast að þeir sem hafa fylgst með umræðunni velkjast væntanlega ekki í vafa um að ég hef miklar efasemdir um það hvernig hefur verið haldið á málum hérna, svo að vægt sé til orða tekið.

Það bendir allt til þess að lofsverðar blekkingar, held ég að orðalagið hafi verið sem fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, notaði, utanríkisráðherra í málinu hafi náð í gegn hratt og vel. Mann grunar að þegar allir þrír þingflokkar stjórnarandstöðuflokkanna voru orðnir sáttir við þá nálgun sem þar var kynnt hafi menn svo sem ekki gert mikið meira með málið, menn hafi reiknað með því að það myndi fara hratt og vel í gegnum þingið með litlum athugasemdum. En svo lendir sá ágæti ráðherra á vegg sem hann sá ekki fyrir, sem er auðvitað það að menn fóru að kafa ofan í málið. Menn fóru að spyrja sig gagnrýnna spurninga og leita að svörum við spurningum sem mönnum þótti annaðhvort illa svarað eða augljóst að væri verið að reyna að skauta fram hjá.

Eins og ég sagði í útvarpsviðtali í gær var staðan þannig síðastliðinn föstudag þegar hæstv. utanríkisráðherra kom hingað og átti orðastað við okkur Miðflokksþingmennina að hann hefði getað slökkt á okkur með því að svara spurningum og leggja fram rök og útskýra málið. En eftir heimsókn ráðherrans held ég að almennt séð sé hægt að segja að menn hafi verið enn þá vissari um að málið þarfnaðist (Forseti hringir.) ígrundaðri skoðunar við og það mikið.