149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:22]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Eins og höfum rætt fer ekki mikið fyrir viðbúnaði ríkisstjórnarinnar í málinu. En eftir andsvör hv. þingmanns er samt að renna upp fyrir mér hvað embættismennirnir hafa verið sniðugir í orðavali sínu þegar þeir bjuggu til þessa svokölluðu fyrirvara eða kenningar eða tilgátur að fyrirvörum fyrir stjórnmálamennina. Þeir verða ekki hankaðir á orðalagi þessara greina eða fréttatilkynninga og hvað menn hafa tínt til.

En til hvers? Til hvers var þá þessi meinti fyrirvari? Ég er sammála hv. þingmanni, annars vegar snerist þetta um að reyna að fresta stjórnarskrárspurningunni, fresta henni fram að lagningu sæstrengs, eða a.m.k. fram að kröfu um að fá að leggja sæstreng. Það var annað. En það var líka önnur ástæða. Ég veit hver hún er. Hæstv. forseti veit hver hún er og ég hef grun um að hv. þingmaður viti líka hver hún er. Það þurfti að fá þingflokk Sjálfstæðismanna til að samþykkja málið. Í því verkefni virðast þessir fyrirvarar, hinar handhægu blekkingar eða hvað það var sem Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, kallaði þá, hafa komið að góðum notum. Því að þingflokkurinn, allur sem einn, nánast — við vitum það ekki alveg fyrir víst enn þá — sneri á punktinum og marseraði í takt með orkupakkanum, skrifaði greinar sem voru keimlíkar og kom hingað og hélt nokkrar ræður sem voru keimlíkar líka, en hefur svo ekkert mætt síðan. Ekkert mætt til að ræða málið eftir að allt þetta fór að rakna upp og við fórum að átta okkur betur á eðli og innihaldi málsins.

En það er enn tími. Vonandi munu þingmenn Sjálfstæðisflokksins og fleiri stjórnarliðar mæta til leiks og útskýra fyrir okkur hvers vegna við höfum rangt fyrir okkur, telji þeir að sú sé raunin.