149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:05]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er mjög gott að fá hv. þingmann inn í umræðuna á þessum tímapunkti því að hann sér hlutinn kannski í aðeins öðru ljósi, í nýju ljósi myndi ég segja, og það er mjög gagnlegt fyrir okkur, þingmenn Miðflokksins, sem höfum verið að reyna að komast til botns í þessu öllu saman án þess að fá nokkur einustu svör frá þeim sem styðja málið eða nokkurn einasta viðbótarrökstuðning þeirra sem vilja að Alþingi samþykki þetta.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður nefndi smávirkjanir. Það er rétt að nú er mjög mikil ásókn í slíkar virkjanir. En svo er annað atriði sem ég hef gert að umtalsefni áður og myndi mjög gjarnan vilja fá álit hv. þingmanns á og það er mjög skyndilegur og mikill áhugi á því að reisa hér svokallaða vindorkugarða eða vindmyllugarða. Þetta eru gríðarlega miklar framkvæmdir. Vindmyllur eru engin smámannvirki og þarf mikið umstang í kringum þær, vegi á milli þeirra og auðvitað raftengingar og steypa þarf gríðarlega mikinn sökkul undir hverja vindmyllu svoleiðis að þetta hefur ekki verið samkeppnishæf orka miðað við það verð sem býðst fyrir orku á Íslandi, þ.e. það verð sem almenningur á Íslandi og fyrirtæki hafa haft aðgang að. Nú skyndilega kviknar þessi mikli áhugi á því að reisa vindmyllugarða og ég dreg þá ályktun að menn geri ráð fyrir að orkuverð muni hækka og þess vegna telji þeir þetta forsvaranlegt nú. (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður að þetta geti komið heim og saman?