149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:10]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Við þetta er því að bæta að á korti sem Evrópusambandið hefur birt að framtíðarskipan orkumála, eftir að allar þessar tengingar sem stefnt er að með þriðja orkupakkanum hafa náð fram að ganga, er gert ráð fyrir að Ísland verði tengt við evrópska raforkumarkaðinn og framleiði raforku einkum með þrennum hætti; með vatnsaflsvirkjunum, jarðvarmavirkjunum og vindmyllum, að þessi þriðja stoð bætist sem sagt við. Þetta hefur verið notað sem rökstuðningur fyrir sæstrengslagningu, ég held meira að segja af hálfu Landsvirkjunar, að þarna sé viðbótanna fyrst og fremst að vænta þegar búið er að tengja landið, þ.e. með aukinni vindorku, svoleiðis að mér þykir það vera enn ein vísbendingin um að þetta sé allt saman tengt.

Ég ætlaði hins vegar að spyrja hv. þingmann um annað af því að hann spurði: Er Alþingi treystandi til að verja fullveldi landsins? Þá varð mér hugsað til orða hæstv. forsætisráðherra í fyrirspurnatíma, líklega í gær eða fyrradag — það er orðið erfitt að átta sig á hvaða dagur er hvað. Hæstv. ráðherra fullyrti þá að það kæmi alltaf til kasta Alþingis varðandi hugsanlega sæstrengslagningu. Nú er reyndar í dag búið að leiðrétta hæstv. ráðherra hvað það varðar, en hugsunin sem skaut upp í huga manns var þessi: Ef Alþingi er ekki treystandi til að leiða fram vilja almennings í orkumálum í þessu grundvallaratriði, (Forseti hringir.) verður Alþingi, sama Alþingi þess vegna, þá treystandi til að leiða sæstrengsmál til lykta svo sómi sé að?