149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:24]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Herra forseti. Nú er komið að því að ég klári ræðu mína um samspil ólíkra reglugerða Evrópusambandsins. Þetta er ræða sem ég hóf sl. nótt, náði ekki að klára. Svo týndist hún í morgun en hefur nú fundist aftur. Mikið af blöðum fylgir þessari umræðu og nú er þessi ræða fundin, ólíkt fyrirvaranum, og ég get haldið áfram flutningi ræðunnar. Ég vil geta þess sérstaklega að þótt þetta efni hafi verið mér hugleikið alllengi voru það athugasemdir og ábendingar hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar um þessi mál sem fengu mig til að tileinka eina ræðu, sem verða nú raunar tvær, þessu efni.

Þetta er gríðarlega stórt mál í samhengi hlutanna, þó að það hljómi kannski ekki mjög spennandi, einkum og sér í lagi í tengslum við þennan þriðja orkupakka, vegna þess að menn líta iðulega fram hjá því að með nýju regluverki lifir það ekki sjálfstæðu lífi. Það fer strax að spila saman við það regluverk sem fyrir er og ekki aðeins í þessu tilviki á sviði orkumála heldur til að mynda á sviði samkeppnismála og með tilliti til markaðsmála í heild innan regluverks þessa EES-samnings. Það getur auðvitað gert það svolítið ófyrirsjáanlegt hver endanleg og raunveruleg áhrif slíkra innleiðinga sem þessarar verða. Þó er mikilvægt að hafa í huga, og kannski hefur það mest skýringargildi, að allt er þetta mjög markmiðsmiðað hjá Evrópusambandinu. Segja má að með stöðugum viðbótum reglugerða sé Evrópusambandið að undirbúa jarðveginn fyrir það að geta náð meginmarkmiðunum. Þess vegna er mikilvægast af öllu að líta til meginmarkmiðanna og í tilviki þriðja orkupakkans að líta til meginmarkmiðanna um samtengingu raforkukerfis Evrópu og hugsanlegt uppbrot stórra raforkufyrirtækja og aukinn aðgang að endurnýjanlegri orku.

Ég minnist þess, herra forseti, að þegar ég var starfsmaður á fréttastofu Ríkisútvarpsins snemma á þessari öld, í upphafi aldarinnar, átti fréttastofan eintak af EES-samningnum, upprunalegri gerð. Það hafði verið prentað í einum fjórum heftum. Þrjú þeirra voru samningurinn sjálfur og svo voru einhver fylgiskjöl í því fjórða. Þetta voru ekki stór hefti, þetta voru hálfgerðir bæklingar, fjórir bæklingar. Það var EES-samningurinn. Síðan þá hefur þessi samningur vaxið jafnt og þétt með nýjum reglugerðum á ótal sviðum, m.a. sviðum sem við Íslendingar höfum kannski ekki gert ráð fyrir að myndu heyra undir þennan samning. Ég veit ekki hversu stór samningurinn er núna, hversu marga hillumetra af plássi þarf undir hann, en hann vex jafnt og þétt.

Hingað inn í þingið streyma stöðugt nýjar reglugerðir og má ekki skoða þær einangrað hverja fyrir sig. Þess vegna þótti mér undarlegt, og ég efast ekki um að hæstv. forseti hefur verið hissa eins og ég, þegar hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði að fjórði orkupakkinn kæmi þeim þriðja ekkert við og myndi bara skoðast sér seinna. Ekki aðeins tengjast þessir orkupakkar augljóslega allir saman og allt regluverk sem varðar orkumálin heldur tengjast reglugerðir sem varða orkumálin öllu hinu regluverkinu líka.

Enn og aftur er einfaldasta leiðin til að átta sig á því í hvað stefnir að líta til markmiðanna. Evrópuréttur er mjög markmiðsdrifinn. Þetta er gamalt ágreiningsefni víða, frægt er að fyrir bandaríska hæstaréttinum takast menn á um það, og hafa gert um árhundraðaskeið, hvort eigi að túlka þröngt, þ.e. líta til laganna sjálfra, eða hvort menn eigi að túlka lögin út frá markmiðunum. Í Evrópurétti er alveg skýrt að markmiðin hafa hvað eftir annað reynst vera ráðandi og markmið þriðja orkupakkans ættu að vera til þess fallin að valda okkur Íslendingum verulegum áhyggjum og nægja til að við stöldruðum við og skoðuðum málið, (Forseti hringir.) biðum þeirra upplýsinga sem er að vænta og munu væntanlega skýra áhrifin enn frekar.