149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:36]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefnir eina af stóru ráðgátunum í málinu. Hvað gerðist? Við erum mikið búin að reyna að átta okkur á því. Á mörgum sviðum höfum við náð árangri í þessari umræðu, komist nær kjarna málsins, en þetta er ein af stóru óleystu gátunum. Hvað gerðist, ekki hvað síst innan Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs? Ég veit að margir fyrrverandi þingmenn þess flokks eru jafn undrandi og við á því.

Það koma engin viðbrögð sem heitið getur frá þingmönnum flokksins þannig að ekki hjálpar umræðan okkur að því leyti. Þeir tjá sig ekki, reyndar með einni undantekningu því að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé, sem hafði tjáð sig talsvert um þriðja orkupakkann og gagnrýnt hann, tekur reyndar ekki þátt í umræðu um málið en hefur stöku sinnum komið upp í umræðum um fundarstjórn forseta til að skammast yfir því að við séum að ræða málið yfir höfuð.

Í ljósi þess að hv. þingmaður spyr samtímis hvað gerðist með Vinstri græna og hvað við getum lært af reynslunni langar mig að grípa aðeins niður í frétt úr Morgunblaðinu frá 2002 um annan orkupakkann og vitna í þáverandi þingmann Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Árna Steinar Jóhannsson, sem var fulltrúi flokksins í iðnaðarnefnd Alþingis. Hann segir, með leyfi forseta, að staða raforkumála í Evrópu sé allt önnur en hér á landi. „Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, lítum svo á að raforkukerfið hér á landi eigi að vera á félagslegum grunni,“ segir hann. „Við lítum á það sem eitt af stoðkerfum landsins.“

Þarna er sá hv. þingmaður, held ég að megi segja, í rauninni að vísa í tvennt sem ég taldi að væru meginstoðir viðhorfs Vinstri grænna í þessu máli. Annars vegar er hann að andmæla markaðsvæðingu orkunnar, hins vegar að draga það fram að hún skipti sköpum við (Forseti hringir.) uppbyggingu atvinnulífs hringinn í kringum landið. Það væri óskandi að Vinstri grænir rifjuðu upp fyrri yfirlýsingar og tækju mark á þeim.