149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:44]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir geysilega áhugaverða ræðuröð um upprunavottun orku sem ég hef fylgst með af athygli, enda er þetta nátengt markmiðum þriðja orkupakkans. Við sjáum að menn eru þegar farnir að leggja grunninn að því að hann komi til fullra áhrifa, m.a. með samtengingu raforkukerfis Evrópu og sölu orku úr einum sameiginlegum potti með þessari upprunavottun, sem er að mínu mati fölsun eins og sakir standa en verður það ekki ef búið verður að tengja saman allt orkukerfi Evrópu og allir sækja í sama pott.

Ég ætla hins vegar að spyrja hv. þingmann um annað, um atriði sem hann nefndi í ræðu sinni og við höfum nefnt hérna annað slagið. Það er leitin að fyrirvaranum. Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort hann hafi veitt því athygli að í dag gaf sig fram nýtt vitni sem taldi sig hafa séð til fyrirvarans í starfi atvinnuveganefndar, taldi að hann væri í vinnslu þar. Tók hv. þingmaður eftir þeirri óvæntu heimsókn hv. þm. Þorsteins Víglundssonar og uppljóstrun hans? Getur þetta hjálpað hv. þingmanni eitthvað við rannsóknarstörf eða fer að koma að því að menn einfaldlega gefist upp á leitinni og úrskurði að fyrirvarinn sé ekki til?