149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:08]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er áhugavert að skoða afstöðu Alþýðusambands Íslands og raunar fleiri samtaka á vinnumarkaði, sérstaklega kannski verkalýðshreyfingarmegin en ekki eingöngu, og bera saman við þá umræðu sem varð í Noregi þar sem hin geysilega sterku norsku alþýðusamtök voru eindregið andsnúin þriðja orkupakkanum. Verkamannaflokkurinn, sem er nátengdur þeim samtökum, hafði miklar efasemdir um þennan pakka.

Manni finnst það í sjálfu sér rökrétt þegar litið er til þess hvaða áhyggjur menn hafa af innleiðingu pakkans og þeirri markaðsvæðingu orkunnar sem gert er ráð fyrir í framhaldinu. Því að nú hefur þessi svokallaða markaðsvæðing orku ekki alltaf reynst sérstaklega vel, reyndar oft mjög illa, og leitt til óhagkvæmni og verðhækkana fremur en hitt.

Ég nefni sem dæmi þá þróun sem varð í Bandaríkjunum á tíunda áratugnum, til að mynda í Kaliforníu, þar sem reynt var að stuðla að aukinni samkeppni á markaði og einmitt gefa fólki kost á að velja milli fyrirtækja, hvaðan það keypti orkuna. Þá urðu til fyrirtæki eins og Enron. Enron hafði reyndar verið orkuframleiðandi áður, orðið til úr tveimur orkufyrirtækjum, en fór að einbeita sér að því að selja orku, og jarðgas reyndar líka, rafmagn og gas. En afleiðingin varð ekki betra verð fyrir neytendur og á endanum fór fyrir Enron (Forseti hringir.) eins og menn þekkja, þeir gengu of langt í veðmálum, í að veðja á orkumarkaðinn.