149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:51]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er ástæða til að þakka hv. þingmanni fyrir mjög yfirgripsmikla ræðu á aðeins fimm mínútum. Hún vekur ýmsar spurningar. Maður veit varla hvar maður á að byrja.

Hv. þingmanni hefur verið tíðrætt um verðþróun á orku, ekki hvað síst til heimila. Ég varð nú satt að segja hálffeginn að hv. þingmaður skyldi hafa brugðið sér úr sal þegar hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir hélt því fram eina ferðina enn, reyndar ekki í ræðustól en við hlið ræðustóls, að orkuverð, a.m.k. í tilviki hv. þingmanns, hefði lækkað. En það er kannski svolítið lýsandi fyrir umræðuna og lýsandi fyrir meginþema ræðu hv. þingmanns, sem gekk út á að bera saman annars vegar raunheima og hins vegar málflutning stuðningsmanna þessa orkupakka.

Hv. þingmaður fjallaði ekki bara um raforkuverð til heimila heldur ekki síður til fyrirtækja og nefndi stóriðjuna. En því miður hefur stóriðjan, það verður að segjast, mætt heilmiklum fordómum m.a. úr stjórnarliðinu, ekki af hálfu hæstv. forseta, ég vil taka það skýrt fram, en úr ákveðnum áttum innan stjórnarinnar, jafnvel ekkert svo fjarri hæstv. forseta, en ekki frá honum sjálfum. Það er mjög bagalegt því að stóriðjan hefur skipt alveg gríðarlega miklu máli fyrir heilu byggðarlögin, fyrir heilu landshlutana sem undirstaða nýsköpunar. Það má ekki gleyma því að svona undirstöðuatvinnugreinar eru um leið undirstaða nýsköpunar.

En það sem ég vildi spyrja hv. þingmann út í er hvort menn séu að hans mati að færast meira og meira í þá átt að vanmeta framlag iðnaðar og stóriðju (Forseti hringir.) á sama tíma og ríkisstjórnin boðar þjóðarsjóð þar sem hún ætlar að safna saman tekjunum af því að selja raforku til stóriðju?