149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:16]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Háæruverðugur forseti. Hv. þingmaður sagði: Meiri hluti utanríkismálanefndar átti ekki að afgreiða málið með þeim hætti sem meiri hlutinn gerði.

Ég tel rétt að taka fram að málið er mér skylt. Ég var minni hlutinn, einn, en meiri hlutinn var allir hinir. En hvað er átt við með „átti“? Hvað er átt við með að eiga að gera eitthvað? Getur það ekki þýtt annaðhvort að menn eigi að gera eitthvað vegna þess að það er rétt eða að menn eigi að gera eitthvað vegna þess að þeim er skipað að gera það?

Ég óttast einmitt að meiri hluti utanríkismálanefndar hafi átt að afgreiða málið með þeim hætti í öðrum skilningnum þó að hann hafi ekki átt að gera það í hinum, enda var skyndilega skorið á umræðu í nefndinni og tekið fyrir það að fleiri gestir yrðu kallaðir fyrir, þar með talið fyrrnefndur Jón Baldvin Hannibalsson, sem maður hefði haldið að hefði talsvert skýringargildi fyrir málið í ljósi stjórnmálasögu hans og aðkomu að gerð EES-samningsins fyrir Íslands hönd.

Því spyr ég hv. þingmann: Hvað veldur að hans mati því að meiri hluti utanríkismálanefndar afgreiddi þetta mál með þeim hætti sem gerðist og að við erum hér um miðja nótt að ræða þetta mál án þess að nokkur svör hafi borist dögum saman frá því fólki (Forseti hringir.) sem segir okkur að við eigum að innleiða þennan þriðja orkupakka?