149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:46]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti yfirferð hv. þingmanns ákaflega áhugaverð vegna þess að hún lýtur að stóra samhengi þessa máls, sambandi Íslands og Evrópusambandsins ekki hvað síst, og sambandi íslenskra stjórnmálamanna og flokka við það samband, eða kannski réttara sagt viðhorf íslenskra stjórnmálamanna og flokka til sambandsins.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var fyrstur manna til að benda á að fyrirvararnir svokölluðu, eða fyrirvarinn, við höfum aldrei vitað hvort þetta ætti að vera í fleirtölu eða eintölu, væru blekking, við skulum alla vega segja fyrstur til að gera það með áberandi hætti.

Nú í dag eða kvöld, eða í gær, herra forseti, tíminn líður, benti Þorsteinn Pálsson á annað sem kann eftir á að hyggja að virðast augljóst, að undanlátssemi Sjálfstæðisflokksins við Evrópusambandið í þessu orkupakkamáli kunni að vera til marks um einhvers konar nýja vakningu innan þess flokks varðandi sambandið við ESB og hugsanlega aðild, a.m.k. hefur margt í rökum þeirra sem tala fyrir innleiðingu þriðja orkupakkans haft mikinn samhljóm með því sem til að mynda hv. þingmenn Viðreisnar og Samfylkingarinnar hafa sagt og lýtur einmitt að sambandi Íslands og Evrópusambandsins. (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður að við horfum upp á hugsanlega stefnubreytingu Sjálfstæðisflokksins gagnvart Evrópusambandinu?