149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:50]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta varðar vissulega umræðuna um þriðja orkupakkann. Það hefur verið hálfgerð aukabúgrein hjá okkur að reyna að greina ástæður þess að stjórnarmeirihlutinn gengur fram með þeim hætti sem hann gerir í málinu, því að það myndi hjálpa okkur að skilja eðli orkupakkans og hvers kunni að vera að vænta í tengdum málum í framtíðinni. Það má segja að a.m.k. sé grein Þorsteins Pálssonar ákveðin vísbending. En ég myndi vilja bæta því við greinina, eins og ég kom reyndar aðeins inn á í fyrra andsvari, að mér þykir vera svo mikill samhljómur með rökstuðningi Evrópusambandsflokkanna, Viðreisnar og Samfylkingarinnar, og svo rökstuðningi þeirra Sjálfstæðismanna, a.m.k. hluta þeirra, í þinginu sem hafa talað fyrir innleiðingu pakkans. (Forseti hringir.) Er það hugsanlega ekki tilviljun að menn skuli rökstyðja innleiðinguna á sama hátt?