149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:32]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Á vissan hátt var ágætt að ég skyldi ekki ná að klára þessa stuttu yfirferð mína um stöðu mála varðandi tengingu við Kýpur með sæstreng fyrr en nú vegna þess að það hefur svo margt skýrst í millitíðinni. Nú liggur fyrir þessi áhugi, og ekki bara áhugi heldur áform breskra fjárfesta um að tengjast Íslandi um sæstreng, fullfjármögnuð áform, eftir því sem Sunday Times segir, og einnig liggur fyrir álit þess efnis að verði búið að innleiða þriðja orkupakkann þegar fjárfestar banka upp á og segjast vera tilbúnir til að tengja geti Alþingi ekki gert neitt til að stöðva það.

En spurningar hv. þingmanns eru stórar. Annars vegar er það spurningin um hvernig þetta gangi fyrir sig. Það er hreinn klaufaskapur í mér að vera ekki búinn að hafa til reglugerðirnar sem varða þetta sérstaklega, en ég las þær við undirbúning þessarar ræðu um Kýpur. Þær eru aðgengilegar. Ég mun þá þurfa að fjalla um það í ræðu í framhaldinu.

En ég get hins vegar strax svarað spurningu hv. þingmanns um samspil ACER og ESA. Þetta hefur verið nefnt af stjórnvöldum hér til marks um að tveggja stoða kerfið sé enn í fullu gildi, að það sé í rauninni ekki ACER sem hlutast til um málin hér heldur fari það allt saman í gegnum ESA. En það er allt saman mjög skýrt með hvaða hætti það gerist. Það gerist með þeim hætti að ESA tekur við forskrift eða drögum, eins og það er kallað, það mætti alveg kalla það tilmæli, sem sagt ESA tekur við tilmælum frá ACER um (Forseti hringir.) hvernig málum skuli fylgt eftir.