149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:37]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta tel ég alls ekki vera mismæli eða misminni hjá hv. þingmanni og raunar hefur mér þótt kostulegt, eftir að hafa kynnt mér þetta ágætlega, að hlusta á suma hv. þingmenn stjórnarliðsins á meðan þeir voru enn að tjá sig um málið, halda því fram að einn af meginkostum þessarar innleiðingar, eða þess hvernig að henni var staðið, væri sú staðreynd að tveggja stoða kerfið væri varið með milligöngu ESA. En fræðimenn bentu hins vegar á það, m.a. fyrir utanríkismálanefnd, að það væri ekki síst þetta sem storkaði tveggja stoða kerfinu vegna þess að það væri orðið hæpið að halda því fram að ESA réði ferðinni.

En ég myndi bæta við þetta og segja að ekki aðeins lúti ESA í rauninni boðvaldi ACER þegar þetta er allt komið til framkvæmda, heldur geti milliganga eða hlutverk ESA í þessu tilviki í raun falið í sér aukaálag á Ísland. Því að þess er sérstaklega getið að ESA hafi möguleika eða rétt á að beina athugasemdum til ACER. Það er ekki hægt að skilja það öðruvísi en svo að þar sé átt við athugasemdir sem lúta að því að ACER hafi misst af einhverju sem varðar eftirfylgni reglnanna, orkupakkans, svoleiðis að það má í raun líta á ESA sem aukaeftirlit með Íslandi og þá að sjálfsögðu Noregi og Liechtenstein líka.

En hin spurning hv. þingmanns um fjórða orkupakkann er auðvitað gríðarlega stór, sem og áhrif hans. Við erum enn að vinna í því að kynna okkur þau áhrif. Ég vonast til þess, herra forseti, að við (Forseti hringir.) munum geta haft ítarlegar umræður um það hér á föstudag.