149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:41]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég minnist þeirra athugasemda sem hv. þingmaður vísar í frá hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni. Það kom mér á óvart, ég skal segja alveg eins og er. Raunar kom fleira mér á óvart í yfirlýsingum hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar í þessu máli, ekki hvað síst er varðar náttúruvernd. En það er önnur saga.

Þetta dæmi um Kýpur er mjög upplýsandi fyrir okkur Íslendinga vegna þess að það er svo margt sem er sameiginlegt með þeirri stöðu sem við erum í og horfum nú fram á, ekki hvað síst eftir umfjöllun Sunday Times. En þó ber þess að geta að auðvitað er þetta lengra komið hjá Evrópusambandsríkjunum, en við erum á þessari sömu braut. Og þriðji orkupakkinn gerir þegar ráð fyrir þessu aukna hlutverki ACER.

En þá að hinni eiginlegu spurningu hv. þingmanns. Það var einmitt mjög lýsandi fyrir vald ACER yfir ríkjunum eða landsreglurunum, eins og þeir eru kallaðir — það munu vera orkustofnanir ríkjanna sem eru í rauninni reknar, sýnist mér á öllu, sem einhvers konar útibú frá ACER — að eftir að það vandamál kom upp sem ég nefndi í lok ræðu minnar, um að menn teldu fjárfestana ekki forgangsraða á réttan hátt, þeir legðu of mikla áherslu í upphafi á byggingu innviða í kringum Aþenu í stað þess að fara beint í sæstrenginn, þá setti ACER einmitt ofan í við landsreglara eða orkumálastofnun Grikklands fyrir að láta þetta viðgangast. Og það gerði reyndar framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins líka. Svoleiðis að þetta hvort tveggja lagðist á eitt, framkvæmdastjórnin og ACER, við að (Forseti hringir.) hirta eiginlega orkumálastofnun Grikklands.