149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:44]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög mikilvægt innlegg inn í þessa umræðu sem hv. þingmaður hefur komið hér fram með. Þarna sjáum við að dæmin sanna það hversu valdamikil þessi stofnun er og kemur til með að vera, orkustofnun Evrópusambandsins, ACER. Þarna höfum við dæmin og það eru einmitt þau sem við eigum að leggja út frá og getum síðan yfirfært þau á Ísland þegar sæstrengur verður kominn. Þá er alveg ljóst að aðkoma okkar að þeim málum verður engin samkvæmt þessu.

Menn eiga alltaf að læra af reynslunni, þeir eiga að kynna sér málin ofan í kjölinn. Það er alveg greinilegt að hv. þingmenn hafa ekki gert það hvað þetta varðar. Hér heyrðum við og bentum á rangfærslur sem hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kom hér á framfæri og væri óskandi að hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson væri hér í salnum núna til þess að geta rökrætt það við okkur. Við höfum margsinnis kvartað yfir áhugaleysi annarra þingmanna yfir því að koma inn í þessa umræðu. Það þýðir ekkert að skýla sér á bak við það að búið sé að segja allt sem segja þarf. Hér eru alveg kristaltær dæmi um með hvaða hætti þessi stofnun vinnur og hefur þar af leiðandi það vald sem við höfum óttast mjög að verði þegar innleiðing þriðja orkupakkans verður að veruleika.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að gera vel grein fyrir þessu vegna þess (Forseti hringir.) að þetta er afar mikilvægur þáttur í umræðunni.