149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:46]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka andsvarið og mun leitast við að gera enn frekar grein fyrir þessu og vísa m.a. í þær reglugerðir sem beitt er í dæmum sem þessu og sérstaklega þessu tiltekna dæmi um Kýpur.

Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þingmanni að það vekur enn furðu að hv. þingmenn sem styðja framgöngu þessa máls, eða virðast gera það — þeir gerðu það síðast er þeir tjáðu sig — skuli ekki leitast við að leiðrétta okkur ef þeir telja að við séum að fara með rangt mál. Ég bið ekki um meira. Ég geri mér ekki einu sinni lengur vonir um að þeir svari spurningum. En það væri strax vel þegið og myndi dýpka umræðuna enn frekar ef þeir hefðu fyrir því að leiðrétta okkur ef þeir telja að við séum að fara með einhverjar rangfærslur hér.

Engu að síður hefur þessi umræða reynst mjög gagnleg. Og enn í kvöld og nótt höfum við verið að uppgötva nýja fleti á þessu máli og vonandi getum við haldið áfram að dýpka þessa umræðu á föstudag, ekki hvað síst ef athugun okkar á fjórða orkupakkanum gefur okkur tækifæri til að setja hann í samhengi við þann þriðja.

En af því að hv. þingmaður nefndi að það væru fáir til svara hér, fáir að fylgjast með, nánast enginn, vil ég þó láta þess getið að hinn ágæti hv. þm. Vilhjálmur Árnason situr hér með okkur í salnum. Við kunnum að meta það. Auðvitað vildum við helst að hann tæki þátt í umræðunni og kæmi í andsvör við okkur. Við skulum sjá til. Það getur gerst enn. Hvað sem því líður þá þökkum við nærveru hans hér og kunnum að meta hana.