149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta sé mjög rétt ábending hjá hv. þingmanni. Hvað þessa fyrirvara varðar hefur ekki verið haft í huga að aðrir aðilar gætu átt bótakröfu á hendur okkur. Það er mikilvægt að hafa í huga og því hefur verið fleygt fram í umræðunni.

Ég vil segja í því sambandi að það er mikill ábyrgðarhluti af fyrirtæki í almannaeigu eins og Landsvirkjun að ganga fram fyrir skjöldu á þann hátt að í raun og veru stilla þessum fyrirtækjum upp við vegg. Gleymum því ekki að þó raforkuverðið mætti vera hærra til þessara fyrirtækja, og ég styð það alveg að samningarnir séu endurskoðaðir og reynt að finna flöt á því hversu hátt er hægt að fara með raforkuverðið, þá er það sjónarmið sem við verðum að hafa í huga að ekki er hægt að stilla slíkum fyrirtækjum upp við vegg þannig að þau sjái jafnvel hag sinn í því að hætta starfsemi.

Raforkusamningar eru eins og hverjir aðrir samningar og alveg eins og EES-samningurinn. Það eru tveir aðilar sem koma að samningnum og það er meginregla í samningagerð að báðir aðilar fari sáttir frá samningaborðinu. Það þarf að vera líka í þessu tilfelli, (Forseti hringir.) annars mun það hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar sem geta orðið okkur mikið áfall.