149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Það er vissulega rétt að þegar samningar eru gerðir er leitast við að báðir aðilar fari þokkalega sáttir eða þokkalega ósáttir frá borði. En þarna er um að ræða að þegar menn koma að samningaborðinu standa þeir ekki alveg jafnfætis. Það hafa gríðarlegar fjárfestingar átt sér stað hjá fyrirtækjunum, búið að fjárfesta fyrir tugi eða hundruð milljarða í tækjum og byggingum og mannafla og slíku, og það er vitanlega mjög erfitt að horfa ekki á þá miklu fjárfestingu þegar verið er að semja um orkuverð. Mótaðilinn er í þessu tilviki Landsvirkjun — og ég tek undir með þingmanninum að það er eðlilegt að slíkir samningar séu endurskoðaðir en ég hef áhyggjur af aðferðafræðinni og þeim mörkum sem fyrirtækin setja sér — og menn standa ekki jafnfætis þegar annar aðilinn býður vöru, í þessu tilfelli raforku, sem hinn þarf nauðsynlega á að halda til að halda starfseminni gangandi.

Ég skil vel áhyggjur sem hafa komið fram, m.a. frá verkalýðsleiðtoganum Vilhjálmi Birgissyni, um fyrirtækið Elkem, að Landsvirkjun sé í þeirri stöðu að geta nýtt sér þá staðreynd að sú mikla fjárfesting sem þarna er sé þess eðlis að fyrirtækið muni í lengstu lög reyna að fá til baka þá fjárfestingu. En það eru einhver sársaukamörk sem ekki verður farið yfir og spurningin er vitanlega hvenær þau eru orðin slík að áhyggjur verkalýðsforkólfsins (Forseti hringir.) verði raunverulegar.