149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:08]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir hans prýðisgóðu ræðu. Hann kom þar inn á orkustefnu Evrópusambandsins. Við það vöknuðu nokkrar spurningar sem ég myndi vilja bera undir hv. þingmann.

Í fyrsta lagi: Hvað finnst hv. þingmanni um að fjórði orkupakkinn hafi litið dagsins ljós? Hann var samþykktur í síðustu viku í ráðherraráði Evrópusambandsins, eftir því sem fréttir greina. Þessi orkupakki hefur ekki litið dagsins ljós hér fyrir augum okkar á hinu háa Alþingi okkar Íslendinga. Vekur það ekki furðu hv. þingmannsins, fyrst svo er að hann er búinn að fá samþykki — vitað er til þess að þessi orkupakki, sem er samansafn reglugerða og tilskipana Evrópusambandsins, sem er það nýjasta, svokallaður vetrarpakki, í tengslum við það mál sem við erum nú að ræða, þ.e. innleiðingu þriðja orkupakkans, sem er gömul frétt í Evrópusambandinu — af hverju í ósköpunum við ræðum ekki líka fjórða orkupakkann hér, alla vega til kynningar og til skoðunar til að sjá fram í tímann í tengslum við það mál sem við ræðum hér nú? Þetta er eins og ökumaður sem er að keyra og horfir bara rétt fram fyrir húddið og ekur af stað kannski á allt of miklum hraða miðað við hversu langt hann sér. Er ekki rétt að áliti hv. þingmanns að málið sé skoðað fyrst þetta er komið fram og mun verða komið á borð uppi í Stjórnarráði?