149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:17]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég er honum mjög sammála í því að það er alveg stórundarlegt að við skulum ekki fá upplýsingar um fjórða orkupakkann því að þetta hangir algjörlega saman. Það er rangt hjá þingmönnum eins og hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sem sagði í viðtali á netmiðlum í gær að það ætti að aðgreina þarna á milli, taka hvern pakka fyrir sig. Það getur engan veginn átt við í þessu máli. Ég held að það sjái allir.

Mér fannst mjög gott hjá hv. þingmanni þegar hann kom inn á það hér hvers vegna ekki væri hægt að veita okkur þessar upplýsingar, minnisblöð sem hann minntist á, lögfræðiálit o.s.frv. Norðmenn hafa fengið allar þessar upplýsingar en ríkisstjórnin heldur þeim spilum algjörlega að sér. Einhverra hluta vegna verður maður að álykta sem svo að stjórnarmeirihlutinn, ríkisstjórnin, sem er að reyna að koma málinu í gegn, vilji hreinlega ekki veita okkur nauðsynlegar upplýsingar um fjórða orkupakkann. Að manni læðist sá grunur, herra forseti, að það tengist því að þá sjáum við enn betur hvert stefnir að endanum í því að afsala okkur fullveldi yfir orkuauðlindum okkar þegar á hólminn er komið, þegar við erum komin með fjórða orkupakkann, að það sé endapunkturinn hvað þetta varðar. Þó að þeir verði fleiri er hann a.m.k. endapunkturinn þegar kemur að því yfirþjóðlega valdi sem orkustofnun Evrópusambandsins fær. En ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma svona vel inn á það (Forseti hringir.) hvað er að óttast við að við fáum þessar upplýsingar.