149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:30]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Af því að við höfum hér með okkur fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Vilhjálm Árnason, í salnum langar mig að spyrja hv. þingmann í upphafi ræðu minnar, ég ætla að taka mér það bessaleyfi um leið og ég bið forseta að koma þeirri spurningu áleiðis til utanríkisráðherra, um gögn sem utanríkisráðuneytið birti á heimasíðu sinni. Plaggið var uppfært 1. apríl 2019, þannig að gögnin eru ný, til þess að gera í samhengi hlutanna, þ.e. það sem kallast spurningar og svör um þriðja orkupakka ESB. Það er á heimasíðu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins.

Nú vil ég biðja hv. þm. Karl Gauta Hjaltason, sem stýrt hefur leitinni að fyrirvörunum, að fylgjast líka með af því að hv. þingmaður er í salnum. Hér er klausa sem snýr að hinum lagalegu fyrirvörum, eins og þeir eru kallaðir í þessari samantekt. Samantektin ber yfirskriftina: „Er lagalegur fyrirvari Íslands á innleiðingu þriðja orkupakkans hérlendis í samræmi við skilning ESB?“ Það er kaflinn sem ég vísa til. Í þessum kafla eru átta efnispunktar. Sá áttundi er, með leyfi forseta:

„Sérstaða Íslands og grundvallarforsendan verður jafnframt áréttuð með bókun í sameiginlegu EES-nefndinni. Þar verður vísað í þennan sameiginlega skilning Íslands og ESB.“

Í fyrsta skipti verð ég að biðja tiltekinn þingmann að koma upp í andsvar. Ég óska eftir að Karl Gauti Hjaltason kom hérna upp í andsvar og upplýsi mig um hvort hann í öllum sínum málarekstri hafi séð tangur eða tetur af þessari bókun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Ég man ekki eftir því að þetta atriði hafi verið lagt fram með gögnum málsins, hvorki þingsályktunartillögu utanríkisráðherra né heldur lagafrumvörpum iðnaðarráðherra.

Ef ég hef misskilið plaggið þá biðst ég forláts á því. En það væri þá bara til styrkingar umræðunni ef bent væri á hvar þessi bókun í sameiginlegu EES-nefndinni liggur, hvernig hún er orðuð og þar fram eftir götunum, því að það hlýtur að skipta umtalsverðu máli í því samhengi að saga fyrirvaranna í þessu máli er sorgarsaga. Það væri sérstaklega athyglisvert í ljósi þess hversu takmarkaðar upplýsingar stuðningsmenn þessarar innleiðingar hafa haft um fyrirvarana, að hérna væri plagg sem er sérstaklega tilgreint 1. apríl síðastliðinn í yfirlitsplaggi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, og það kannast enginn við, að ég held, að hafa séð það.

Ég vil ítreka, með leyfi forseta: „Sérstaða Íslands og grundvallarforsendan“ — er þá verið að vísa til hinna meintu fyrirvara — „verður jafnframt áréttuð með bókun í sameiginlegu EES-nefndinni.“

Við verðum að fá að óska eftir því að þessi bókun verið lögð fyrir væntanlega utanríkismálanefnd, ég tel að hún væri réttur farvegur fyrir þessar upplýsingar, þó að þetta sé sett fram hér af iðnaðarráðuneytinu.

En ég læt þetta duga í þessari ræðu minni. Tíminn er að hlaupa frá mér. Ég kem inn á efnisatriðin í næstu ræðu sem ég ætlaði mér að koma inn á í þessari. Ég bið hæstv. forseta að hlutast til um að við fáum upplýsingar um hvar þessa bókun sameiginlegu EES-nefndarinnar er að finna, (Forseti hringir.) því að það gæti hjálpað til við að skýra myndina eða undirstrika hversu óskýr hún er.