149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:40]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir svarið. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þingmanni að þetta þarfnast frekari skoðunar við og fyrstu fregnir af því eru óljósar. Ég tek undir með hv. þingmanni þegar hann segir að það sé einkennilegt og auðvitað sætir furðu ef hv. þingmenn stjórnarinnar hafa ekki getað upplýst þetta fyrr í umræðunni.

Nú erum við búnir að vera ansi lengi í þessari umræðu en samt eru að koma nýjar upplýsingar, glænýjar upplýsingar. Við fyrstu sýn virðist þetta vera eitthvað nýtt í málinu, en eftir því sem hann las áðan, ef ég tók rétt eftir, eru þetta einhvers konar áform um að sérstaða Íslands verði áréttuð í sérstakri bókun fyrir sameiginlegu EES-nefndinni.

Ef það er rétt skilið, sem ég hef ekki vitneskju um á þessu stigi málsins, er þetta enn annar búturinn í púsluspilið um það að leiðin fyrir sameiginlegu EES-nefndinni er vörðuð skilningi á sérstöðu Íslands og þess þá heldur ætti að vera greið leið að mæta fyrir þá sömu nefnd og æskja eftir undanþágu. Ef þessi bókun verður að veruleika þarf auðvitað að ræða hvaða gildi hún hefur sem einhvers konar fyrirvari á skuldbindingum Íslands þegar við innleiðum reglugerðir á Íslandi, hvort sú árétting nægi eða dugi, það þarf að ræða.