149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:42]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér hefur núna á milli andsvara svo sem bara gefist tækifæri til að glugga lauslega í yfirlýsingu sameiginlegu EES-nefndarinnar vegna málsins frá því, að mig minnir, í maí 2017, þannig að þar er eðlilega ekki gerð nein grein fyrir þessum síðar tilkomna fyrirvara. Við verðum að skoða í dag hvað snýr upp og niður á því. En fremst í röðinni er það hversu hissa maður er á að fyrirvaraumræðan sé ekki betur grunduð en þetta. Þarna virðist þó hafa verið gengið frá einhvers lags sameiginlegri lýsingu. Ég á eftir að skoða hvað í henni felst og vekur undrun að ekki hafi verið meira úr því plaggi gert ef eitthvert hald er í, sem maður á alveg eftir að gefa sér tíma til að skoða. Það gæti svo sem vel verið að frágangurinn á þessu sé svipaður og sameiginlega skilningnum sem var lagður fram í tveimur fréttum á heimasíðu utanríkisráðuneytisins, annars vegar sameiginlegur skilningur EFTA-þjóðanna og hins vegar sama sameiginlegur skilningur hæstv. utanríkisráðherra og orkumálakommissarsins, sem ég í augnablikinu man ekki hvað heitir, en Spánverjinn ágæti sem hefur svo oft verið nefndur í þessari umræðu.