149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir svarið. Það sem við vitum um orkupakka fjögur er komið af heimasíðu Evrópusambandsins og þar eru nokkrir liðir taldir upp, það helsta við þennan nýja fjórða orkupakka, þar er t.d. rætt um orkunýtni bygginga. Samtök iðnaðarins vísa í umsögn sinni til þess að þetta þurfi að athuga sérstaklega.

En í þeim pakka er líka kafli sem heitir einfaldlega Endurnýjanleg orka. Ég hef ekki náð að kynna mér hann sérstaklega. En bara nafnið segir mér eitt, að það sé áhugavert fyrir okkur Íslendinga að reyna að skyggnast inn í hvað þar er á ferðinni. Hvað er í fjórða orkupakkanum um endurnýjanlega orku? Er það eitthvað sem við þyrftum að setja okkur inn í og hafa hugsanlega áhyggjur af? Ég segi þetta vegna þess að þetta er beint framhald af fyrri orkutilskipunum á pökkum sem hafa verið innleiddir á Íslandi.

Það er heildarmyndin sem skiptir máli. Við höfum svo sem líka séð það hjá fræðimönnum sem hafa fjallað um íslensku stjórnarskrána, hvort við höfum gengið of langt í framsali á valdi, að menn hafa haft áhyggjur af því að samandregið yfir þessi 25 ár sem EES-samningurinn hefur verið í gildi kunnum við að vera búin að afsala okkur svo miklu af völdum að við þurfum að staldra við. Meðal annars spilar inn í þetta umræðan um breytingar á stjórnarskrá o.s.frv. Er þá ekki eðlilegt fyrst við höfum bæði orkupakka þrjú og fjögur núna opna fyrir framan okkur, eða getum haft þá, að skoða heildaráhrifin þótt ekki væri nema stjórnskipulegu álitaefnin?