149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það væri margra hluta vegna mjög skynsamlegt, þótt ekki væri nema bara fyrir það atriði sem kemur fram í frétt af fjórða orkupakkanum eftir samþykkt ráðherraráðsins á pakkanum um miðja síðustu viku. Þá kom fram í þeirri frétt — ég verð að viðurkenna að mér hefur ekki gefist tækifæri til að blaða í gegnum reglugerðir pakkans eins og þær liggja fyrir — en í þeirri frétt og samantekt um efnisatriði fjórða orkupakkans var eitt atriði sem stakk þar sérstaklega í augu og það var fyrirætlan um að útvíkka og styrkja valdsvið ACER. Og af því að þessar áhyggjur af stjórnskipulega hlutanum hverfast dálítið um þá stofnun með einum eða öðrum hætti, þá er þessi ætlan Evrópusambandsins að útvíkka og styrkja valdheimildir þess og hlutverk auðvitað til þess fallin að kalla á nauðsyn þess að þetta verði skoðað áður en gengið er frá þriðja orkupakkanum. Það hlýtur bara að teljast einhver sanngjörn og eðlileg nálgun á það atriði þegar Evrópusambandið, sem leggur málin upp, er búið að segja: Við ætlum að bæta í, víkka út og styrkja þessa stofnun. Sú stofnun og verksvið hennar er það sem veldur mestum áhyggjum hér heima varðandi pakkann á undan sem nú er ræddur og þá er ekkert annað í stöðunni en að skoða þetta saman og heildstætt.