149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Hann fór ágætlega yfir söguna í nótt og mikilvægi auðlindanna, sér í lagi jarðhitans. Því er eðlilegt að spyrja þingmanninn hvort honum finnist eðlilegt að við séum hér með orkupakka þrjú og höfum orkupakka fjögur nánast liggjandi fyrir framan okkur, að vera að innleiða orkustefnu Evrópusambandsins á Íslandi í stað þess að vinna eftir orkustefnu Íslands, langtímaorkustefnu Íslands, þar sem m.a. væri horft til nýtingar á jarðvarma, mögulegrar fjölgunar virkjana eða uppsetts aukaafls í þeim sem fyrir eru o.s.frv.

Við höfum verið að kalla eftir því undanfarið að nokkrum spurningum sé svarað af hálfu fylgjenda þessa máls, þar á meðal spurningunni um hvort menn taki undir það sem fram kemur í umsögn lögmannsins Eyjólfs Ármannssonar, þar sem hann varar beinlínis við því að verið sé að samþykkja þetta mál hér án þess að fyrir liggi orkustefna fyrir Ísland.

Er þá ekki rétt, ekki síst í ljósi sögunnar, þar sem við höfum náð svo gríðarlegum árangri í að byggja upp nýtingu á sjálfbærri endurnýjanlegri orku, að við mörkum okkur stefnu áður en við tökum upp stefnu ríkjabandalags hinum megin við hafið? Það er forgangsröðun sem mér finnst allt í lagi að velta fyrir sér.