149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:00]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir þessa spurningu. Hann spyr um orkustefnuna, ekki bara orkustefnu Evrópu heldur einnig orkustefnu fyrir Ísland. Ég tek undir með hv. þingmanni að það sætir furðu þegar við tökum jafn afdrifaríkar ákvarðanir og stefnan er að gera með því að innleiða orkutilskipun Evrópusambandsins, sem er sú þriðja í röðinni, og sitjum uppi hér án orkustefnu. Það er auðvitað furðulegt vegna þess að ef maður veit ekki hvert maður er að fara þá skiptir kannski ekki máli hvaða leið maður velur vegna þess að maður lendir þá bara einhvers staðar.

Menn þurfa að setja sér markmið. Þeir þurfa að leggja spilin á borðið, átta sig á því hvert þeir vilja fara til þess að taka réttar ákvarðanir. Við stöndum frammi fyrir því að vera hérna mjög orkuríkt land. Hér eru fallvötnin. Við erum búin að virkja þau mikið á síðustu öld. Við erum með jarðvarmann, og ég hef farið yfir það. Við njótum góðs af honum. Við höfum notið hans til húshitunar. Við höfum notið hans til raforkuframleiðslu. Ég minntist áðan á djúpboranir sem gætu fært okkur enn þá meiri orku í náinni framtíð. Tilraunir og rannsóknir standa yfir. Við erum einnig með vindorku sem höfum lítt notað. Við erum hérna með sjávarfallaorku sem margir geta séð að getur fært okkur umtalsverða orku í náinni framtíð. Og af því að ég bjó lengi í Vestmannaeyjum þá nefni ég að við erum hérna með óbeislaða ölduorku.