149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta svar. Já, það eru, ég segi ekki óþrjótandi, en margir möguleikar í því að nýta auðlindirnar og náttúruna í og við Ísland. Hv. þingmaður taldi upp nokkra möguleika. Ég veit ekki betur en að við höfum í sjálfu sér enga sérstaka langtímastefnu varðandi alla þá möguleika sem hv. þingmaður nefnir hér. En á sama tíma erum við að innleiða Orkustofnun Evrópusambandsins, sem liggur fyrir. Hluti af henni eru þessir pakkar sem hér hafa verið innleiddir.

Í orkupakka fjögur — ég tek það fram, hv. þingmaður og virðulegur forseti, að ég hef ekki náð að kynna mér það til hlítar — eru tvö atriði nefnd. Það er orkunýtni bygginga og síðan er eitthvað sem kallast endurnýjanleg orka.

Hefur hv. þingmaður náð að kynna sér þessi atriði í orkupakka fjögur? Hvað er í kaflanum um endurnýjanlega orku? Hvað er í kaflanum um orkunýtni bygginga? Er eitthvað þar sem skiptir máli varðandi t.d. nýtingu, stjórnun, uppbyggingu, ráðstöfun o.s.frv. á þeim orkugjöfum eða orkunýtingarmöguleikum sem hv. þingmaður nefndi hér? Er ekki þess virði að staldra við og kanna það hvað það þýðir?

Mér finnst dálítill ábyrgðarhluti hjá fylgjendum þessa máls að ætla sér að afgreiða orkupakka þrjú þegar þeir vita að hann er undanfari þess sem koma skal, án þess að hafa það jafn mikið á hreinu og mögulegt er í dag.