149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:07]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og það yfirlit sem hann hefur flutt um sögu jarðvarmavirkjana. Þetta er mjög fróðlegt og mikilvægt innlegg inn í umræðuna.

Það sem mér þykir áhugavert í þessu sambandi eru þessar djúpboranir, eins og ég kom aðeins inn á áðan og ætla að koma nánar inn á núna. Ég held að þær þjóni eiginlega bara einum tilgangi, þ.e. að komast þar í orkuvinnslu sem sé hugsuð til útflutnings. Við sjáum að ef farið er á netið þá eru margar fréttir, eins og ég hef tekið með mér í ræðustól, af slíkum áformum hér heima, t.d. orkufyrirtækja á borð við HS Orku, að ráðast í djúpboranir. Mjög fróðlegt er að skoða t.d. eina frétt sem birtist í fréttamiðlinum Reuters. Talað er um allt að 100 milljón dollara verkefni á Íslandi.

Síðan er athyglisvert að í þeirri grein sem er tiltölulega nýleg, hún er rétt tæplega tveggja ára gömul, segir að þetta verkefni — ef ég þýði þetta lauslega jafnóðum úr enskum texta — sé hugsað til þess að gera fyrirtækinu kleift að flytja út orku. Svo er haldið áfram, að þetta geti sem sagt fært breskum heimilum orku og allt að 1,6 milljónir heimila á Bretlandi myndu njóta góðs af þessu. (Forseti hringir.) Má ekki áætla sem svo, hv. þingmaður, að þetta sé hugmyndafræðin á bak við djúpboranirnar, (Forseti hringir.) útflutningur á orku?