149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, hér er á ferðinni verkefni sem er að sjálfsögðu mjög áhugavert og kemur fram í fréttum sem ég hef verið að skoða á þessum erlendu miðlum, fréttamiðlum, að það eru margir sem koma að þessu, margir erlendir aðilar koma að þessu með fjármögnun og rannsóknarteymi og annað slíkt. Út frá því er þetta að sjálfsögðu áhugavert verkefni og sjálfsagt að taka þátt í slíku verkefni. En að manni læðist sá grunur að fyrst og fremst sé verið að taka þátt í þessu af því að menn vilja fá eitthvað til baka af fjárfestingunni, sem er mikil í þessum verkefnum, og sú fjárfesting fæst þá til baka ef orkan er seld á markað erlendis. Og það segir hreinlega hér, eins og ég nefndi, að markmiðið sé að selja orkuna til Bretlands.

En það eru umhverfisáhrifin sem skipta verulegu máli í þessu sambandi. Höfum í huga að hér er verið að bora allt að fimm kílómetra í jörðu. Og maður veltir fyrir sér: Getur þetta komið af stað einhvers konar eldsumbrotum? Hversu djúpt liggur kvikan? Það er náttúrlega rannsóknarefni út af fyrir sig. Að því leytinu til er þetta áhættuverkefni sem gæti, ef illa færi, valdið tjóni á orkuvinnslunni sem þegar er til staðar, eins og t.d. á Reykjanesi.

Ég vil fá að heyra frá hv. þingmanni um umhverfisáhrifin og áhættuna. Er ekki eðlilegt að þetta sé eitt af því sem verði rætt hér vegna þess að þetta allt fylgir því að innleiða (Forseti hringir.) þessa tilskipun, að flytja út orkuna?