149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:21]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann beindi sjónum ekki síst að áhrifum af samþykkt þessa pakka og þeim verðhækkunum sem verður að gera ráð fyrir í framhaldinu þegar orka er annars vegar. Sú verðhækkun er þeim mun líklegri til að verða þar sem meginstefna Evrópusambandsins miðast við samræmingu á orkuverði og eins er einsleitni afar mikilvægt undirliggjandi markmið í Evrópusamstarfinu.

Hv. þingmaður vísaði til hagsmuna nokkurra atvinnugreina, hann nefndi garðyrkjubændur. Þeir hafa skilað umsögn þar sem þeir biðjast greinilega undan þessum orkupakka.

Hann nefndi sömuleiðis stóriðjuna, þar er nýleg norsk skýrsla, eiginlega alveg glæný, þar sem fjallað er um raforkuverð og áhrif á ýmsar atvinnugreinar og atvinnu og hag starfsfólks og fyrirtækja. Þar er lýst miklum áhyggjum, m.a. af stóriðjunni í Noregi, orkufrekri starfsemi. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi kynnt sér þá skýrslu og hvort hann geti tekið undir þær meginniðurstöður sem ég hef lýst í svo örstuttu máli sem færi hefur gefist á hér.