149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:26]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Í norsku skýrslunni sem ég nefndi er lýst miklum áhyggjum af áhrifum þriðja orkupakkans, svo mjög sem hann hefur verið ræddur þar í landi, á nákvæmlega þá þætti sem hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni. Í skýrslunni er lagt upp með að þriðji orkupakkinn muni hafa í för með sér hærra raforkuverð og lagt er upp með að þetta hærra raforkuverð muni kippa samkeppnisgrundvellinum undan mikilvægri atvinnustarfsemi í Noregi. Sérstaklega er getið um orkufreka starfsemi. Því er eðlilegt og skiljanlegt að þeir sem hafa með höndum slíkan atvinnurekstur hér á landi séu þungt hugsi og áhyggjufullir yfir þessari þróun.

Getur hv. þingmaður tekið undir með mér um að æskilegt hefði verið að samfara þessum málatilbúnaði öllum varðandi þriðja orkupakkann á Alþingi hefði fylgt hagfræðileg greining á afleiðingum af innleiðingu þriðja orkupakkans fyrir þjóðarbúskapinn, þar á meðal fyrir raforkuverð og fyrir hag þeirra atvinnugreina sem mest eiga undir, atvinnustig og aðra slíka þætti?