149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Já, ég hef svo sannarlega talað fyrir því að í tengslum við þetta mál vanti algjörlega greiningar á áhrifum þess fyrir efnahagslífið, atvinnustigið í landinu, raforkuverð til heimila o.s.frv. Það er alveg nauðsynlegt að settar verði upp svokallaðar sviðsmyndir. Hvað ef sæstrengur verður lagður? Og hann mun koma, það er bara spurning um árabil hvenær hann kemur. Ég spái því að á næstu 12, 14, 15 árum verði kominn sæstrengur. Það er búið að undirbúa hann eins og við þekkjum. Þetta verður allt að skoðast í því ljósi. Ég held að það sé bara lágmarkskrafa þegar svona stórt mál er til umræðu í þinginu að fyrir liggi einhvers konar greiningar.

Við höfum kallað eftir því, t.d. hvað varðar fjármálaáætlun, að settar séu fram sviðsmyndir. Hvað ef mikill samdráttur verður í ferðaþjónustunni? Hvaða áhrif hefur það á gengið? Hvaða áhrif hefur það á atvinnustigið? Hvaða áhrif hefur það á hina ýmsu þætti efnahagslífsins?

Þetta eru eðlileg vinnubrögð í tengslum við gerð fjármálaáætlunar og ef við setjum það í samhengi við þessa vinnu og umræðu hér sem varðar mjög mikilvægt málefni, eru það fullkomlega eðlileg, réttmæt og vönduð vinnubrögð að einhvers konar greiningar liggi fyrir. Ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta skortir algjörlega í þessa umræðu sem er miður.