149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:38]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Fyrst vil ég koma inn á það sem ég kom inn á í síðustu ræðu minni og sneri að bókun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Mér sýnist, miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið sendar og hefur tekist að afla mér á þeim tíma síðan ég var síðast í pontu, að þetta sé að kjarnanum til það efni sem kom fram í margumræddri fréttatilkynningu á heimasíðu utanríkisráðuneytisins, þannig að það komi fram að þarna sé efnislega um sama hlutinn að ræða. Það vekur engu að síður athygli á þeim upplýsingum sem lagðar voru fyrir utanríkismálanefnd, fyrst með trúnaði til föstudagsins 10. maí, og það undirstrikar þá skoðun sem fram kom í frétt á heimasíðu ráðuneytisins. Þetta hefur verið lesið upp áður eins og það kom fyrir í fréttinni og biðst ég forláts á því ef smávægilegar skekkjur, en vonandi ekki efnislegar, verða í þýðingunni. Þetta varðar það sem var sagt frá í fréttinni á þeim nótum að fulltrúi Evrópusambandsins hefði lesið upp yfirlýsingu á þessum sameiginlega fundi. Hérna segir, með leyfi forseta, og lausleg þýðing fer á eftir:

„The EU notes that the timely implementation of the third energy package and the whole EEA is of utmost urgency as the application of the common regulatory framework is a pre-condition to continue undistorted electricity trade between the connected EFTA/EEA countries and the EU/EEA partners.“

Þetta þýðir efnislega að Evrópusambandið áréttar að hröð innleiðing þriðja orkupakkans á öllu EES-svæðinu sé gríðarmikilvæg þar sem innleiðing hins sameiginlega regluverks sé forsenda fyrir óheftum viðskiptum milli þeirra EES-landa sem þegar eru tengd með burðarvirkjum til raforkuflutnings yfir landamæri og eiga í slíkum viðskiptum í dag.

Þetta er í rauninni sambærilegt þeirri málsgrein sem vakti töluverða umræðu hér úr fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins fyrir nokkrum dögum í þingsal og setur aftur á borðið umræðuna um aðkomu Norðmanna. Því hefur verið haldið fram að efasemdarmönnum um innleiðingu þessa regluverks sé einhvern veginn stýrt eða þeir studdir fjárhagslega eða með öðrum hætti frá Noregi.

Að því skoðuðu og af fundum sem liggur fyrir að hafi átt sér stað milli íslenskra ráðherra og norskra ráðherra bendir allt til þess að hinn norski þrýstingur, ef hann er á annað borð til staðar, sé á allt öðrum stað en stuðningsmenn innleiðingar þriðja orkupakkans hafa haldið fram, hann sé á ráðherraleveli þar sem ríkisstjórn Noregs hefur þá mögulega verið að beita ríkisstjórn Íslands þrýstingi með stuðningi Evrópusambandsins miðað við þá klásúlu sem hér liggur fyrir og trúnaði var létt af eftir að málið hafði fyrst verið lagt fram í trúnaði í utanríkismálanefnd. Trúnaði var aflétt föstudaginn 10. maí kl. 15. Þetta var haganlega orðað í fréttatilkynningunni, svolítið falið en ég held að það sé nauðsynlegt að við tökum þetta upp á borðið, að þrýstingurinn virðist vera þarna og við skulum bara nálgast málið eins og það raunverulega er.