149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:48]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Það er sjálfsagt akkúrat málið, við erum ekki með nægar upplýsingar til að meta hvað er sagt á milli línanna, ekki annað en það sem við erum nýbúin að fá í hendurnar. Það er ljóst að Noregur vill að þetta mál klárist, að við setjum fullan þunga í að innleiða orkupakka þrjú hér á landi, vegna þess að ef það nær í gegn á sem bestum tíma eru hugsanleg áhrif þess einhver vegna þeirrar fyrirtöku sem fyrirhuguð er 23. september. Ég gef mér að það hljóti að vera áhrif sem skipta máli. Það er merkilegt í þessu að settir voru átta fyrirvarar og engin svör hafa birst vegna þeirra og engin viðbrögð þrátt fyrir að eftir okkar upplýsingum hafi verið ýtt á einhverja svörun í þeim efnum. Þetta er svolítið merkileg staða sem við stöndum í, að ef við frestum innleiðingu orkupakka þrjú hefur það einhver áhrif í Noregi og „så videre“, ef maður getur leyft sér að segja það þannig.

Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann út í það sem er að gerast í Bretlandi varðandi Brexit. Við vitum að það skiptir máli þegar við erum að ræða sæstrenginn hvað er að gerast í Bretlandi og Brexit og hvernig það myndi horfa við hér ef Bretland færi út úr Evrópusambandinu, hvort það hefði ekki örugglega einhver áhrif (Forseti hringir.) hér á landi.