149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:02]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það skortir ekkert á að við er að eiga stór viðfangsefni í þessu máli. Það eru mjög stór mál sem við er að fást. Málið lýtur að mögulegum árekstri við stjórnarskrá, málið lýtur að stöðu okkar í evrópsku samstarfi og hvernig við beitum okkur á þeim vettvangi og með hvaða hætti við gætum hagsmuna okkar og málið lýtur að forræði þjóðarinnar yfir mikilvægum orkuauðlindum landsins.

Mig langar að vekja athygli á grein sem birtist á vefsíðu sjónvarpsstöðvar sem rekin er í höfuðborginni og kallast Hringbraut. Þessi grein birtist í gær, 28. maí, og höfundur hennar er Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Þar víkur hann að undirstraumum sem hann telur liggja í málinu sem ástæða er til að gefa nokkurn gaum, herra forseti. Greinin ber yfirskriftina: Rétt að setja fulla aðild aftur á dagskrá.

Greinarhöfundur, Þorsteinn Pálsson, tengir þessa umræðu um orkupakkann mögulegri aðild Íslands að Evrópusambandinu eins og hér verður nánar greint. Með leyfi forseta, ef ég má vitna í grein Þorsteins Pálssonar, hefur hann hana á fallegri setningu: „Veður ræður akri.“

Hann heldur áfram og segir, með leyfi forseta:

„Þær aðstæður eru nú að skapast að góð og gild rök standa til þess að setja spurninguna um fulla aðild að Evrópusambandinu aftur á dagskrá. Umræður um þriðja orkupakkann hafa opnað dyrnar fyrir þetta mál upp á gátt.“

Þetta segir Þorsteinn Pálsson. Hann skýrir þetta nánar í framhaldinu og með leyfi forseta ætla ég að vitna áfram í Þorstein:

„Ritstjórar Morgunblaðsins hafa verið ódeigir í baráttunni gegn þriðja orkupakkanum. Fyrir vikið er Sjálfstæðisflokkurinn klofinn í tvær fylkingar. En rætur þessarar andstöðu virðast ekki síst liggja í því að ritstjórarnir sjá betur en margir aðrir að samtímis og menn samþykkja prinsippin í þessu máli eru þeir í raun að viðurkenna þau prinsipp sem full aðild að Evrópusambandinu er reist á.“

Herra forseti. Það er með þessum hætti sem greinarhöfundur, Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, tengir saman umræðuna um þriðja orkupakkann og möguleikann á fullri aðild að Evrópusambandinu.

Ég ætla að leyfa mér að vísa enn í grein Þorsteins Pálssonar. Hann segir, með leyfi forseta:

„Þetta þýðir að um leið og menn draga fram rökin fyrir aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins og innleiðingu orkureglna hans veikjast prinsipprökin gegn fullri aðild verulega. Álitamál varðandi fulla aðild velta þá meir á tæknilegum álitaefnum.“

Þorsteinn Pálsson segir:

„… umræðan um fulla aðild er nú miklu opnari en áður var. Mikilvægt er að Evrópusinnar hagnýti sér þessa opnun.“

Ég leyfi mér að spyrja, herra forseti: Er það svo að undir forystu Vinstri grænna með þátttöku Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sé verið að stíga veigamikið skref í átt að fullri aðild að Evrópusambandinu?