149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:14]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel fulla ástæðu til að vekja athygli á því að maður sem þekkir jafn vel til í innsta hring íslenskra stjórnmála og Þorsteinn Pálsson skuli telja að svo þungir undirstraumar leiki um þetta mál eins og hann virðist gera ráð fyrir. Ég verð að viðurkenna eftir að hafa velt því nokkrum sinnum upp í umræðunni hvaða lýðræðislegt umboð til að mynda stjórnarflokkarnir hafa til að leggja fram til samþykktar þennan þriðja orkupakka — þetta er mál sem var ekki minnst á í kosningabaráttunni og ekki hægt að halda því fram með sanni að þeir hafi kynnt málið og sagst myndu beita sér fyrir því og sótt sér fylgi á þeim grundvelli. Að sama skapi, ef það er þannig að Þorsteinn Pálsson hafi rétt fyrir sér með að ný tækifæri hafi skapast fyrir Evrópusinna til að beita sér í málinu, að þeir, eins og Þorsteinn Pálsson segir, hagnýti sér þessa opnun, veltir maður fyrir sér hvort Vinstri grænir, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn hafi lýðræðislegt umboð sinna kjósenda til að standa þannig að málum að við færumst nær því en áður, kannski nær því en nokkru sinni áður, að gerast aðilar að Evrópusambandinu.