149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:19]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég þykist skilja á máli hans að hann kunni e.t.v. að hafa í huga alþingiskosningar árið 2009 þar sem stundum hefur verið rifjað upp að af hálfu forystumanna Vinstri grænna á þeim tíma var aftekið með öllu, held ég mér sé óhætt að segja, skömmu fyrir kosningar að flokkurinn myndi standa að umsókn um aðild að Evrópusambandinu, en tók sæti í ríkisstjórn tveggja flokka. Eftir þessar kosningar var mynduð ríkisstjórn með samstarfi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar, sem hafði reyndar stjórnarforystu með höndum. Sú ríkisstjórn lagði fram umsókn um fulla aðild að Evrópusambandinu. Ég geri ráð fyrir því að það sé það sem hv. þingmaður hefur í huga og það er mörgum í fersku minni.

Umræða um aðild að Evrópusambandinu kemur mér afar spánskt fyrir sjónir á tímum þar sem við sjáum að þjóð sem komst að þeirri niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu að hún æskti þess ekki að eiga lengur aðild að þessu samstarfi. Það birtist með mjög glöggum hætti að allt virðist gert af hálfu þeirra sem ráða fyrir þessu bandalagi að gera útgöngu þeirra sem erfiðasta og torveldasta. Þess er skemmst að minnast að í raun og veru má segja að þeir hafi átt þátt í því að binda endi á pólitískt líf bresks forsætisráðherra í liðinni viku.