149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:23]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki rannsakað svo hjörtun og nýrun í þingflokki Vinstri grænna að ég geti fellt neinn dóm um þetta efni en ég get hins vegar litið yfir söguna og látið þess getið að mér kemur það eilítið á óvart að flokkur sem ekki verður annað séð en að sé beinn arftaki Alþýðubandalagsins og þar áður Sósíalistaflokksins, skuli vera í þeirri aðstöðu í fyrsta lagi að vera í leiðandi hlutverki, í forystuhlutverki fyrir ríkisstjórn sem beitir sér fyrir markaðsvæðingu orkunnar, þvert á þann samfélagslega sáttmála sem ríkir í landinu um það að orkufyrirtækin séu í þjóðareign. Að þessi sami flokkur skuli vera í forystu fyrir aðgerð sem hefur í för með sér að dómi jafn skarps greinanda og Þorsteins Pálssonar, að það marki skref í áttina að fullri aðild að Evrópusambandinu.

Það eru sérkennilegar þversagnirnar í stjórnmálunum, herra forseti, og örlögin geta verið gráglettin á stundum. Það er ekki annað að sjá að þetta sé hlutskipti arftaka Alþýðubandalagsins og Sósíalistaflokksins að ganga fram með þessum hætti. Vægast sagt afar sérkennilegt.