149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:35]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Eins og kom fram í ræðu þingmannsins þurfum við náttúrlega að stíga varlega til jarðar í þessum málum talandi um raforkuverð vegna þess að svona stór fyrirtæki, eins og Elkem og fleiri, sjá sér náttúrlega hag í því að vera með starfsemi hér á landi vegna lægra raforkuverðs en annars staðar og ekki viljum við að þau fari úr landi vegna hækkandi verðs. Ég tek því heils hugar undir það með þingmanninum að við þurfum að stíga varlega til jarðar og þar kemur þessi innleiðing þriðja orkupakkans mjög til álita, hvað muni fylgja henni og hvað við fáum við það ráðið ef við samþykkjum þennan pakka. Þess vegna árétta ég það enn og aftur að við eigum að fresta málinu og/eða senda það til EES-nefndarinnar til lagfæringar.

Þetta lýtur líka að raforkuverði til almennings. Almenningur víðast hvar kvartar yfir háu raforkuverði, sérstaklega á köldum stöðum þar sem hús eru hituð með raforku og allar aðferðir til að reyna að gefa einhverja afslætti á því með einhverjum ráðum stjórnmálanna hafa í raun og veru ekki tekist. Einhvern veginn hækkar þá einhver annar liður í raforkureikningnum á móti. Áhyggjur heimila landsins eru þær að raforkuverð muni hækka enn meira ef svo fer sem horfir í raforkumálum við breytingu vegna innleiðingar á þriðja orkupakkanum.