149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:47]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni, einkum fyrir að benda á að á síðasta ári hafi verið verulegur halli á rekstri álversins. Það er alveg ljóst að fyrirtæki af þessum toga verður ekki rekið í mörg ár með halla án þess að gripið verði til róttækra aðgerða í þeim efnum. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að sú staða gæti komið upp að fyrirtæki á borð við álverið í Straumsvík hætti starfsemi. Eflaust myndi nú hlakka í einhverjum, einkum þeim sem hafa viljað stóriðjuna burt héðan úr landinu. Þá hafa þau sjónarmið t.d. heyrst innan Vinstri grænna.

Áhrifin t.d. á Suðurnesin yrðu töluverð og líka á Stór-Hafnarfjarðarsvæðið, eins og við segjum. Það myndi hafa veruleg áhrif á útsvarstekjur Hafnarfjarðarbæjar og atvinnustigið, bara almennt hvað þetta varðar, öll þau afleiddu störf sem ég nefndi áðan. Þannig að við verðum að hafa ábyrga stefnu gagnvart þessum fyrirtækjum þegar kemur að raforkusamningum. En ég ítreka að það er sjálfsagt að reyna að hækka verðið til stóriðjunnar að þeim mörkum að sátt náist við þessi fyrirtæki sem báðir aðilar geta sæmilega vel við unað. Annars er hætta á ferðum.